Eldur og brennisteinn

Þessi leikur hentar vel fyrir stóran hóp (minnst ca.10). Byrjið á að útbúa miða með númerum sem ná jafnhátt og þátttakendur eru margir. Séu þeir t.d. 17 eru númerin frá einum og upp í 17. Brjótið miðana saman þannig að númerin sjáist ekki og setjið þá í lítið ílát. Stólum er raðað í hring, einum færri en þátttakendur eru.
Allir setjast á stólana nema einn, en hann stendur inni í miðjum hringnum. Sá sem er í miðjunni lætur nú alla draga einn miða úr ílátinu og sjálfur fær hann síðasta miðann. Passið að aðrir sjái ekki númerin ykkar.
Nú á sá sem er inni í hringnum að nefna tvö númer (athugið að allir viti hvaða númer er hæst). Þá eiga þeir sem eiga þessi tvö númer að skipta um sæti, en sá sem er í miðjunni reynir að ná öðrum þeirra. Það má ekki fara til baka í gamla sætið. Ef miðjumaðurinn er orðinn þreyttur á að vera inn í getur hann sagt; "Eldur og brennisteinn". Þá eiga allir að skipta um sæti.

Önnur útgáfa af þessum leik er "Blandaðir ávextir". Þá eru valdar fjórar til sex ávaxtategundir (eftir því hvað margir eru í leiknum) og nöfn þeirra skrifuð á miðana í stað númeranna. Þegar miðjumaðurinn segir t.d. "appelsínur" þá eiga allar appelsínur að skipta um sæti o.s.frv. Þegar allir eiga að skipta um sæti er sagt "Blandaðir ávextir". Góða skemmtun!