Kýlubolti eða kýló" eins og hann var alltaf kallaður í mínu ungdæmi er sérdeilis skemmtilegur útileikur.
Það sem til þarf er lítill bolti (t.d. tennisbolti- sjá mynd) og spíta ca 60 cm. löng, tálguð til í annan endann svo gott sé að halda um hana.
Þátttakendum er skipt í tvö lið. Kastað er upp krónu um það hvort liðið byrji inni.Völlurinn er á stærð við fótboltavoll (á skólalóðum) og eru fjórir pottar teiknaðir í hornin og einn fyrir miðju innilínu SJÁ MYND Einn úr útiliðinu er pottmaður og er staðsettur við miðjupottinn.

Nú á inniliðið að mynda röð út frá miðjupottinum. Fremsti maður er með kýluprikið og pottmaðurinn stendur beint á móti honum og gefur boltann upp svo hinn geti kýlt hann. Sá sem kýlir á að reyna að slá boltann eins langt og hann getur. En.........ef einhver úr hinu liðinu grípur boltann er sá sem kýldi úr leik (í bili). Slái sá sem kýlir vindhögg (þ.e.hittir ekki boltann) má hann reyna tvisvar í viðbót en fer þá aftast í röðina ef honum hefur ekki tekist að hitta boltann. Um leið og boltinn hefur verið kýldur hleypur kýlingurinn í fyrsta pottinn sem er afmarkaða hornið beint á móti honum (1.pottur). Nú ef hann hefur kýlt langt kemst hann kannski í næsta pott(2.pottur) eða þarnæsta (3.pottur) eða jafnvel alla leið heim aftur.

Útiliðið á að ná boltanum, kasta honum til pottmannsins (og þá ríður á að vanda sig) sem síðan á að kasta boltanum í miðpottinn og grípa hann aftur. Og boltinn verður að hitta í pottinn. Ef sá sem er að hlaupa er staddur á milli potta er hann úr, í bili, um leið og boltinn snertir heimapottinn. Þessvegna þarf hlaupamaðurinn að fylgjast með hvar boltinn er staddur og stoppa þá í öruggum potti. Þannig kýla allir í inniliðinu boltann og hlaupa hringinn. Komist einhver allan hringinn í einu kasti vinnur liðið eitt líf og fær þá sá sem fyrst var úr
fyrsta lífið o.s.frv. Þegar enginn er eftir til að kýla boltann verða liðsskipti, útiliðið fer inn og inniliðið út.

Góða skemmtun!