Nú frelsarinn er fæddur
vér fögnum komu hans
því hann er góðum gæddur
gjöfum kærleikans.
Þessi vísu samdi ég þegar ég var 10 ára gömul. Þá hafði pabbi minn kennt mér og systur minni að fara með stuðla og höfuðstafi. Alla tíð síðan hef ég haft gaman af því að ljóða hugsanir mínar og ætla ég að sýna ykkur örlítið brot af því hér.
Gosavers


Er hafði lamað hugans þor
harður veturinn
sér vaggaði í vorgolunni
vetrargosinn minn
og sagði við mig: "Sérðu ei
hvað sólin hækkar ört,
að vetur undan vori flýr
og verður nóttin björt.
Því skaltu lofa lífsins gang
og líta á blómin þín."
Svo sperrti hann sinn hvíta koll
og kíkti upp til mín.
Þá fannst mér losna fjötrarnir
sem frostið harða batt
og leiðindunum undir eins
ég út í buskann hratt.
Á augabragði annan svip
mín undraveröld tók
og litli góði gesturinn
á gleði mína jók.
Hann vissi allan veturinn
um vorsins fyrirheit
og kepptist við að komast upp
úr köldum gróðurreit.
Já, þó mér hafi stundum strítt
sú staðreynd, ótrúleg,

þá varstu litli vetrargosi
vitrari en ég.

Oft hef ég leikið mér í sambandi við vísnagerð og hér er ein sem varð til eftir að veðurspáin var lesin í útvarpinu (ath! Það er ekki sama hvernig þið lesið vísuna).

Er nú sama andskotans óveðrið að skella á sömu byggðir suðurlands og síðast? Hvílík veðurspá!

Og þessa kalla ég:


Á þambi

Nú verð ég að fara að fara
að fjarlægja bansettans spikið
því nú er ég barasta bara
búin að éta of mikið.

Þórsmörk

Ég hef ort mikið um Þórsmörkina og hér er ein vísa......

Yndislega Mörkin mín
má ég enn þig finna.
Uppfylling er ásýnd þín
allra drauma minna.

.....og ljóð sem ég orti þegar ég var stödd á aurunum neðan við Skagfjörðsskála.

Ef að létt frá Langadal
líður sjónin fráa
sérðu fríðan fjallasal
faðma heiðið bláa.

Tunglið merlar milt um kvöld
Mýrdalsjökulskalla.
Þar úr skriðum Krossá köld
og kvíslin Tungna falla.

Litfara og Molda má
milli þeirra líta,
framar glæstan Göltinn sjá
gráa aura slíta.

Gleymist Heiðarhornið vart
hátt við jöklabandið.
Fálkhöfuð og Folda skart
fegra Goðalandið.

Útigönguhöfðinn hæst
heldur vöku brattur.
En við Bása búa næst
Bólfellið og Hattur.

Yfir kirkju Álfa hér
unir Réttarfellið.
Hátindunum uppaf er
Eyjafjallasvellið.

Innsta-Haus við reistan rís
Rjúpnafjallið græna.
Rétt við Stakk og Steinsholts ís
stöðvum för svo væna.

Gleymum ekki gömlum sið,
góða ferð þá endum,
kveðjur dalsins verði við
Valahnjúki sendum.

Þórsmörk

Það er vor í Þórsmörkinni,
þýður andblær jöklum frá.
Ennþá fæ ég einu sinni
Íslands fjalladýrð að sjá.

Þar sem ríkir frelsi' og friður
fyllist gleði hjarta manns,
lóukvak og lækjarniður
láta blítt í eyrum hans.

Allt frá Krossár eyðisandi
upp á hæsta jökultind
augað lítur ævarandi
ægitign í hverri mynd.

Hér í víðum faðmi fjalla,
fjarri borg, við skógarlund,
vildi' ég, sátt við allt og alla,
eyða minni hinstu stund.

Ágústnótt í Þórsmörk

Þýtur ferskur ágústblær um öræfanna heim.
Yfir færist kvöldsins djúpa ró.
Rökkurslæðan breiðist yfir heiðan himingeim,
heitir öllum næturinnar fró.

En meðan sofa mannabörn
máni' og stjörnur sjá
um næturhiminn norðurljósin
neistaflugi slá.

Himnaljósin fylla birtu háan jöklasal.
Hríslast um mig gleði lífsins skjótt.
Ævintýraljóma bregður yfir fjöll og dal.
Aldrei leit ég fegri ágústnótt.


Landmannalaugar

Það var hérna' um daginn að mig dreymdi
svo dásamlega öræfanótt,
ég alein var og um mig gleðin streymdi
og allt var svo kyrrt og hljótt.

Í Landmannalaugum
ég lifði frjáls í öræfareit.
Með undrun í augum
ég alla þeirra fegurð leit.

En veruleikinn vakti mig af draumi
og vék í burtu öræfa sýn.
Þá ákvað ég að læðast burt í laumi
og leita' uppi fjöllin mín.

Í Landmannalaugum
ég lifði frjáls í öræfareit.
Með undrun í augum
ég alla þeirra fegurð leit.

Hvert sem munu leiðir mínar liggja
þá lofað hef ég sjálfri mér því
að er mig taka stórborgir að styggja
þá stefni ég Laugar í.


Einu sinni var ég í Kvæðamannafélaginu Iðunni og þótti það ákaflega gaman. En þeir voru alltaf með fundina á laugardagskvöldum og ég vildi verja helginni með fjölskyldunni svo ég hætti að mæta. En eftirfarandi vísur orti ég þegar ég var beðin um að lesa eitthvað upp eftir mig þar. Hver vísa er ort undir þeim bragarhætti sem hún fjallar um.

Bragarhættir

Ferskeytla

Ferskeytlan mín fagra smá
frægir alþýðuna.
Þig mun fólkið Fróni á
fyrst og síðast muna.

Hringhenda

Fjórum línum henti í hring
hægði mínu geði.
Stakan sýnist þarfaþing
þegar dvínar gleði.

Afhending

Alltaf finnst mér afhendingin indæll háttur,
undra léttur ljóðaþáttur.

Braghenda

Braghendan er bændum eins og besti mjöður
þegar ríða úti eða
ánægðir í réttum kveða.

Oddhenda

Óláns hendan Oddi kennd
oft mér vendir trega,
í raunum lendi, ráðvillt stend
rímlaus endanlega.

Úrkast

Aðrir hættir ekkert betur
efni skinu,
oft það frekar unað getur
úrkastinu.

Dverghenda

Dverghenduna dýra muna
dánumenn.
Stemmufuna, stutt í spuna,
styrkir enn.

Stikluvik

Æ mér þykir óðarjál
yndi mikið veita.
Stikluvika stuðlamál
stafar bliki í mína sál.

Samhenda

Samhendunnar sæta óm
sífellt heyrði kæta róm.
Vísnakarlar væta góm
vínið telja bæta hljóm.

Stuðlafall

Hressu landar! Hátt ég andann sendi.
Völt úr sessi víst þó skall,
varð af þessu stuðlafall.

Hagkveðlingaháttur

Ljóða þyngdist þátturinn,
þorrinn kyngimátturinn.
Hagkveðlingahátturinn
huga slyngur átti minn.

Sléttubönd (hringhend)

Öndin létta vísnavog
vægið rétta finnur.
Böndin sléttu áfram og
aftur flétta vinnur.

Skammhenda

Skammhendan í skáldavígi
skrýðir hættina.
Eins og fæti öðrum stígi
inn í gættina.

Langhenda

Langhendan af léttum fundum
leiddi man á hála braut.
Svefnsins van ég var á stundum,
vísnaflans þá alein naut.

Nýlanghenda

Nýlanghendan nokkrum orðum
núna vendir flokki hátta.
Þó að kenndi féndur forðum
föstust stendur ljóðaþátta.

Nýhenda

Nýhenduna nefna vil,
náð þó gruni frá mér snúna,
ljóðafuna skuldaskil
skella muni hart á núna.

Afdráttarháttur

(Takið fyrsta stafinn framan af orðunum í línunum hér að neðan og þá fáið þið þriðju og fjórðu línuna).

Kveikja þrætur margir menn,
meininguna krjúfa.

Sléttubönd

Gleður Iðunn! Varla vér
verjum betur tíma.
Seður hugann, aldrei er
andlaus gömul ríma.

(eða hvað, prófið að lesa vísuna aftur á bak).

Garðyrkjufélag Íslands 100 ára


Í ársögu byggðar vort ástkæra land
í úthafi - skóglendið þakti.
Þá sumar í norðri, með sólroðaband,
hjá sæförum útþrána vakti.

Þeir sigldu með búnað og búfénaðinn
og beittu á hagana grænu.
Þeir nytjuðu skóga og nutu um sinn
næðis á eyjunni vænu.

En tíðindin spurðust og fjölgaði fljótt
fólkinu' á landinu kalda.
Og eyjuna grænu það afklæddi skjótt.
Ó, Ísland þess máttirðu gjalda.

Með árunum breyttist hin iðgræna jörð,
sem íbúi norðursins dáði,
í órofa sanda og örfokabörð;
og eyðingin hámarki náði.

Því margt var það fleira sem markaði spor
en mannanna andvaraleysi,
sem braut niður víkingsins þrautsegju' og þor
og þjóðinni staflaði' í hreysi.

Með fádæma harðyðgi öld eftir öld
hér ógnaði hafísinn mönnum
og farsóttir geisuðu, feigðin tók völd
svo fjölskyldur dóu í hrönnum.

Og við þetta bættist það eyðingarafl
er eldfjöllin hraungrjóti spúðu.
Við óáran þreyttu menn endalaust tafl
og ýmsir af landinu flúðu.

Og ei voru færin til menntunar mörg;
en mannfólkið litlu því skeytti,
því nægði ef daglega nauðþurftar björg
af náð sinni Drottinn því veitti.

Já, þannig var lífið á átjándu öld;
svo ógnþrungið vonleysis klafa.
Þá, hæstu, á Íslandi, greiddu menn gjöld
sem getið vor sagnarit hafa.

En áfram þó börðust hér mætustu menn
sem miðluðu þekkingu' og hlýju.
Þeir trúðu á landið og treystu því enn
að tímarnir breyttust að nýju.

Þótt kotbóndinn íslenski kynni' ekki skil
á kálrækt né þesskonar gjörðum
á örfáum stöðum menn tóku sig til
við tilraunaræktun í görðum.

Þeir fólkið í landinu fengu með sér
og framtíðarstefnuna byggðu.
Þeir vissu um ónotuð auðævi hér
sem afkomu landsmanna tryggðu.

Þið eigið að rækta' ykkur rófur og kál
og rollunum halda frá gróðri;
þá fáið þið kjarnmikla fæðu í mál
og fyllist af næringu góðri.

En íslenska lundin er þrálynd og þver,
á þetta menn vildu' ekki fallast;
"Þótt gys þessir höfðingjar geri að mér
ei grasbítur skal ég þó kallast."

Þá klerkur einn, margfróður, kænskunnar naut.
Til konunnar beindi þeim orðum:
"Nú eldarðu' úr kálinu gómsætan graut,
en glásina alein við borðum."

Og eftir hans þenkingum alltsaman fór-
þar yfir þeim hjúin öll vakka
svo soltin- og feikn var nú freistingin stór
þann forboðna ávöxt að smakka.

Að endingu bara um örlítinn spón
af indælisréttinum báðu.
Og upp frá því margoft hin mektugu hjón
í matjurtir hollar sér náðu.

Frá konungi tilskipun kom nú með gnoð
að kotjarðir bæta menn ættu;
og verðlaun þeir fengju sem virtu hans boð,
en viðlögum ellegar sættu.

Og vonin um aurana áhugann jók
á alhliða garðyrkjustússi -
þótt allt sem að kóngur um ákvörðun tók
menn ynnu í hálfgerðu fússi.

Með "Innréttingunum" efldist vor þjóð
er afgamlar hefðir við brutum.
Nú áttum í fyrsta sinn fiskiskip góð.
Þar fógeta, Skúla, við nutum.

Og bráðlega vaknaði vitundin um
að valdníðsla erlendra manna
í fæðingu kæfði það framfara brum
sem fært gæti hamingu sanna.

Og baráttan hófst, sem við búum að enn,
og braut þennan ánauðarklafa.
Þá félög mörg stofnuðu framsýnir menn
sem fengist við umbætur hafa.

"Hið íslenska garðyrkjufélag" var fætt
af forystuliðinu harða
sem vildi sjá landið sitt laufskrúði klætt,
og lifna við matjurtagarða.

Um sögu vors félags ég fjalla' ekki neitt
(því flest hafa aðrir hér rakið)
en víst er að það hefur byggðunum breytt
og blómræktaráhugann vakið.

Í umbótarstarfinu' er útlitið bjart,
menn ötulir bæina prýða.
Og þar sem að áður var sandflæmi svart
nú sumargræn tún eru víða.

En reikirðu' um landið má rofabörð sjá
sem ræktað við gætum að nýju.
Með örlitlum fræjum og áburði má
þau íklæða gróðri og hlýju.

Þau liðu svo fljótt þessi eitt hundrað ár,
þó umbætur greina við kunnum
þá grætur enn skóginn sinn heiðjökull hár
og harmar þau spjöll sem við unnum.

Og þessvegna ekkert ég verðugra veit
en vakni úr læðingi kraftur
og Garðyrkjufélagar gefi það heit
að græða upp landið sitt aftur.

á páskum, 1985,
Margrét Ólafsdóttir

Og hér er tengill í ljóð um átthaga mína í móðurætt.

Ef til vill bæti ég einhverju við seinna en nú er mál að linni ljóðamolum.