Matur sem mér líkar...........

 
Selmubrauð
2 stórir bollar hveiti 2 " " heilhveiti
1 " " haframjöl
6 tsk. lyftiduft
1 " salt
1 hnefi sólblómafræ
1 " hörfræ
1 " sesamfræ
1 " kúmen
1 líter súrmjólk


Öllum þurrefnunum blandað saman
í stóra plastskál. Hellið súrmjólkinni
saman við og hrærið. Mér finnst
fljótlegast að hræra þetta bara
með sleif. Sett í 3 lítil eða 2 stór
vel smurð form. Bakað á 180° í
50 mínútur, ef blásturinn er á
annars í klukkutíma. Þegar brauðin
eru tekin úr ofninum eru þau vafin
inn í þykkar leirþurrkur eða önnur
stykki og látin vera þannig á meðan þau kólna.

 

Krækiberjasaft

1500 gr. hökkuð krækiber
2 lítrar vatn
30 gr. vínsýra

1 líter berjasafi
600 gr. strásykur


1 líter hratsaft
500 gr. strásykur

 

Þvoið berin vel og hakkið. Blandið
saman berjum vatni og vínsýru.
Látið standa í 12 klukkutíma.

Síið saftina á fínu sigti. Endurtakið
en breiðið léreftsklút yfir sigtið í
seinna sinnið. Blandið sykrinum
saman við og hrærið í öðru hvoru
meðan sykurinn er að bráðna.
Setjið á vel þvegnar flöskur og merkið.

Setjið hratið í pottog látið vatn fljóta
vel yfir. Sjóðið upp. Síið hratið frá eins
og áður og bætið sykrinum saman við.
Setjið á flöskur og merkið.

 

Ávaxtakaka

(1 stórt form)

2 bollar hveiti
1/2 bolli sykur
2 tsk. lyftiduft
1 egg
mjólk

ávaxtamauk inn í kökuna
kanelsykur

 

Þessa köku baka ég þegar sú staða kemur upp hjá mér að ég á afgang af ávaxtasalati en eins og allir vita geymist það ekki lengi. Þá sýð ég mauk úr salatinu, set smávegis sykur saman við og smyr þessu svo inn í kökuna.............Notið vel smurt form með lausum botni. Hnoðið deigið í skál og hafið það frekar blautt. Takið smávegis frá af deiginu en þrykkið restinni inn í formið og upp með brúnum þess. Smyrjið síðan ávaxtamaukinu á deigið og skellið frátekna deiginu í smádoppum þar ofan á. Stráið kanelsykri yfir. Bakið við 200°

Skinka, grjón og grænmeti

1 poki Tilda basmati hrísgrjón

4 þykkar sneiðar partýskinka, skorin í litla teninga

2 msk barbecuesósa original

smávegis ólífuolía
1-2 tsk. karrý (eftir smekk)

1 meðalstór sæt kartafla
3 gulrætur stórar
1/4 meðalstór púrra
1/2 rauðlaukur
smávegis hvítkál


Setjið hrísgrjónin í suðu.

Smábrytjið allt grænmetið.

Setjið barbecue-sósuna á djúpa pönnu og skinkuna út í. Látið sósuna þorna inn í skinkuna. Geymið síðan í skál.

Setjið olíuna á pönnuna og karrýið út í. Ath! Með 2 tsk. verður rétturinn frekar bragðsterkur. Hrærið aðeins og setjið síðan allt grænmetið út í. Svitsið þar til grænmetið er meyrt, bætið þá skinkunni og soðnum hrísgrjónunum út í. Ég sýð alltaf aukapoka af hrísgrjónunum og ber með fyrir þá sem vilja ekki hafa réttinn mjög sterkan. Gott er að bera smábrauð með þessum rétti.

 


Hrærð brún
lagterta

500 gr. hveiti
350 gr. sykur
250 gr. smjörlíki
2 egg
4 msk. kakó, kúffullar
1 tsk. negull
2 tsk. kanill
2 tsk. sódaduft
2 1/2 dl. mjólk

Smjörkrem

250 gr. smjörlíki
1 kg. flórsykur
1/2 bolli sterkt lagað "Neskaffi"
örl. vanilludropar ef vill

 


Hrærið smjörlíki og sykur vel saman,
bætið eggjum og mjólk varlega út í.
Blandið þurrefnunum saman og
setjið út í hræruna. Sett á vel smurða
bökunarplötu og bakað við 200°
ca. 15 mín Ath! Þessi uppskrift
dugar á 2-3 plötur, eftir stærð þeirra.
Látið botnana kólna vel og setjið síðan
smjörkrem á milli.

Hálfbræðið smjörlíkið og hrærið síðan
öllu saman. Ath! Sumum finnst betra
að hafa meira af smjörlíkinu og minna
af flórsykri, en það er smekksatriði.

 

Það er nú kannske of djúpt í árinni tekið að kalla þetta uppskrift........
en er samt sérlega góð samsetning á morgunbita:

Ljóst hrökkbrauð með birkifræum.....
.....þar ofan á léttsmurostur með beikoni og skinku...
.....síðan kemur góður slatti af iceberg-káli....
....á toppnum trjónir svo léttreykt kjúklingaskinka.
Njótið vel!

 

 

Flatkökur

1 kg. hveiti
1/2 kg. heilhveiti
250 gr. haframjöl
sjóðandi vatn

 

 

Blandið mjölinu saman og vætið í með sjóðandi vatninu.Ath! Passið að hræra nægu vatni saman við, hnoðið frekar upp í á eftir. Hnoðið eins hratt saman og þið getið. Búið til rúllu og skerið í passlega bita. (rúllan u.þ.b.5 cm. í þvermál og bitarnir ca. 4 cm.á breidd. Mótið kökurnar fyrst í höndunum en ljúkið svo við að fletja þær út með kefli. Pikkið vel með gaffli. Ath! Það er mjög mikilvægt að þið náið að hnoða deigið saman áður en það kólnar. Annars verða kökurnar seigar. Stillið plötuna á hæsta hita. Ég steiki flatkökurnar á uppgjafa pönnukökupönnu (en þá er ekki er hægt að nota hana í neitt annað síðar), en sumir steikja þær beint á plötunni. Þegar pannan er orðin vel heit, er kakan sett á hana og steikt þar til hún þornar. Ath! Það tekur mjög skamma stund að steikja kökurnar, í mesta lagi 15 sekúndur hvoru megin. Bregðið spaða undir kökurnar á meðan þær steikjast, þannig að lofti undir þær. Þetta varnar því að brunablettir komi í kökurnar og þarf að gera allan tímann meðan verið er að steikja. Staflið upp og vefjið leirþurrku utan um meðan kólnar.

 

Þessi er eftir dóttur mína Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur og tengdapabbi hennar skírði súpuna:

"Hin frábæra fiskisúpa tengdadótturinnar"

(fyrir fjóra)

1 kg. fiskmeti, má vera hvað sem er: ýsa, lax, lúða, rækjur, hörpudiskur, skötuselur. Ýsan er þó ómissandi, og gott að hafa a.m.k. tvær aðrar tegundir með.

2 hvítlauksrif
1 stór laukur
1/2 púrrulaukur
olía til steikingar
2 - 3 stilkar sellerí
1 rauð paprika
2 - 3 gulrætur
1 dós hakkaðir niðursoðnir tómatar
ca 1 peli rjómi (meira ef maður vill)
sa. 1 lítri "Oscars" fiskisoð
karrý de luxe (Pottagaldrar)
tabaskó sósa (4-6 dropa)
hvítlauksduft
fiskikrydd frá pottagöldrum (ef maður vill)

Svona gerir maður:
Hvítlauksrifin marin og laukur og púrra saxaður gróft. Slatti af karrýi
steiktur í olíu á pönnu örskamma stund og laukur og púrrulaukur settur út í og "sveittaður". Hellt í þann pott sem maður ætlar að elda súpuna í.

Sellerí, paprika og gulrætur hreinsað og skorið í bita, steikt á pönnunni og hellt í pottinn.

Fiskisoðið búið til og hellt út í. Tómötunum hellt í. Suða látin koma upp. Kryddað vel með karrýi, tabaskósósu (passa; ekki of mikið) og hvítlauks-dufti. Rjóma hellt út í og smakkað enn frekar til með kryddinu. Passa að láta ekki bullsjóða eftir að rjóminn er kominn út í.

Þegar bragðið er nokkurn veginn komið (maður verður að ímynda sér fiskibragðið með) er fiskurinn settur í (eftir að hann hefur verið skorinn í tiltölulega litla bita) og látinn sjóða í ca 3 mínútur.

Ég athuga venjulega hvort fiskurinn sé ekki soðinn áður en ég ber súpuna á borð, lax og annar feitur fiskur (lúða t.d) gæti þurft örlítið lengri suðutíma, ég set ýsuna venjulega síðast út í og rækjur eru aðeins látnar hitna í súpunni.

Borið fram með heitu brauði, t.d. hvítu bagette og/eða hvítlauksbrauði.
Gott er að hafa vel kalt hvítvín með.

 

 

Pönnusteiktur silungur

Í þennan rétt nota ég alltaf smærri silunginn sem ég veiði, ca. 200-300 gr.fisk

Silungsflök með roði (ath. að afhreistra urriða)
sítrónusafi (má vera úr plastsítrónu)
hvítlaukssalt
pipar og salt (helst úr kvörn)
hveiti
eftirlæti hafmeyjunnar
(krydd frá Pottagöldrum)
smjörlíki

Grænmetisglás:
ólívuolía
paprika
sveppir
gulrætur
púrrulaukur
e.t.v. smávegis hvítkál
púrrulauksúpuduft eða Hollandaise-sósa frá Toro.
Soðnar kartöflur

 

 

ATH! Það eina sem mér finnst ómissandi af grænmetinu eru sveppir og gulrætur. Annars er hægt að nota það sem maður á hverju sinni.
Til tilbreytingar má nota hrásalat í stað soðna grænmetisins.

Aðferð:
Byrjið á því að sprauta sítrónusafa á kjöthliðina á flökunum. Stráið síðan hvítlaukssalti yfir og látið bíða ca. einn tíma.
Setjið smjörlíki á pönnu (alls ekki nema ca. 50 grömm í einu). Veltið silungsflökunum upp úr hveiti sem er kryddað með salti og pipar. Steikið þau fyrst á kjöthliðinni ca. 5 mínútur. Snúið þeim við og stráið eftirlæti hafmeyjunnar yfir fiskinn.
Steikið áfram ca. 5 mín. (Færið upp í ofnskúffu og setjið í hitaofn ef þið eruð með mikið magn annars set ég bara álpappír yfir fatið á meðan ég steiki grænmetið).

Grænmetisglás:
Hreinsið pönnuna og setjið ólívuolíuna á hana. Smáskerið allt grænmetið. Setjið fyrst gulræturnar og látið þær malla dálitla stund. Bætið síðan öllu nema sveppum saman við og mallið aðeins áfram. Setjið sveppina síðast og látið þá steikjast með smástund. Hellið dálítilli mjólk yfir grænmetið (ef þið notið ekki rjóma annars fer hann út í hér og mikið af honum því þá er ekki notaður annar vökvi). Hrærið út í mjólk (miðað við fjóra) einni kúffullri skeið af súpu-sósudufti og hellið yfir grænmetið, látið malla smástund og þá er rétturinn tilbúinn. Berið fram með soðnum kartöflum.

 

Heilræði til veiðimanna:
Silungsflök sem geymd eru í frysti er best að frysta í vatni. Látið flökin í grunna bakka og látið svo renna vatn í þá þannig að fljóti yfir fiskinn. Þannig geymist hann í miklu lengri tíma.

 

Ýsubitar í grænmeti

Hreinsið ýsuflökin mjög vel og skerið í bita (ekki of smátt en samt smærra en venjuleg stykki)
Svitsið grænmeti (mikið af því og má vera hvað sem er) á pönnu í dálítilli ólífuolíu. Ef þið notið gulrætur látið þær þá fyrst á pönnuna dálitla stund. Blandið saman í skál ca. 1 og 1/2 dl. tómatsósu, 3 kúffullar tsk. karrý og 3 dl. vatn (miðað við fjóra). Hellið yfir grænmetið og drekkið ýsubitunum í öllu saman. Látið malla ca. 5 mínútur.
Borðað með soðnum kartöflum. Í þennan rétt má líka nota silung en þá verður að roðfletta hann.

 

 

Kanelsúpa

ca. 1/2 l.vatn
slatti af rúsínum
kanelstangir (2-4 eftir stærð)
rúml.1 l.mjólk
salt og sykur eftir smekk
hveiti hrist með vatni til að jafna súpuna.

 

 

Setjið vatn, rúsínur og kanilstangir í pott og sjóðið þar til rúsínurnar hafa aukið umfang sitt um helming. Bætið mjólk út í og látið suðuna koma upp. Setjið salt og sykur eftir smekk, ath! að ekki þarf mikinn sykur. Þykkið með hveiti sem er hrært eða hrist upp með vatni.

 

Hveitibrauð án gers
(brauðið hennar mömmu)

6 drykkjarkönnur hveiti
6 kúffullar tsk. lyftiduft
flóuð mjólk (u.þ.b. 1/2 líter)
örlítið salt (á hnífsoddi)

 

Hnoðað, notið frekar of mikla mjólk til að byrja með og hnoðið hveiti upp í deigið. Skiptið í tvo hluta og mótið brauð sem bökuð eru á plötu. Skerið skárendur ofan í brauðin og berið mjólk á efri hluta þeirra. Bakað við 200° þar til prjónn kemur hreinn úr brauðunum. (ca.45 mín.)
Ath! Það má líka setja brauðin í form ef vill. Eins má nota heilhveiti og jafnvel haframjöl í stað hluta hveitisins. Það má líka nota súrmjólk í stað heitu mjólkurinnar til að hnoða deigið saman. Semsagt mjög frjálslegt!

 

Rísotto

4-500 gr. blandað hakk
nokkrar baconsneiðar
1 laukur saxaður
River rice hrísgrjón 2-3 bollar
1 lítil dós tómatkraftur
2 kúff. tsk. karrý (Pottagaldrar) paprikuduft á hnífsoddi

örlítið tandoori-Masala-krydd
1/2 tsk. kryddsalt

 

Skerið beikonið í bita og brúnið í potti. Veiðið upp og setjið hakkið og saxaðan laukinn í pottinn. Þegar það er brúnað er baconið sett í aftur ásamt hrísgrjónum. Bætið vatni í svo að fljóti vel yfir. Hrærið karrýið út í tómatkraftinum og setjið það ásamt öðru kryddi saman við. Hugsanlega þarf að bæta meira vatni í á suðutímanum. Þegar hrísgrjónin eru vel soðin og vatnið nokkurn veginn soðið upp er rétturinn tilbúinn.
Skerið hveitibrauð eða heilhveitibrauð (ekki mjög gróft) í sneiðar og setjið á diska. Setjið góða slettu af pottréttinum ofan á brauðið og smá tómatsósu ofan á allt saman. Með réttinum er gott að drekka ískalda mjólk, mysu eða undanrennu.

 

Naglasúpa

vatn
krækiberjasaft
haframjöl
rúsínur (og sveskjur ef vill)
negulnaglar
salt

 

Hlutföllin í öllu sem notað er í súpuna fer eftir smekk hvers og eins. Ef ykkur finnst soðnar rúsínur mjög góðar hafið þið mikið af þeim, ef þið viljið hafa súpuna þykka notið þið mikið haframjöl o.s.frv. Það eina sem ég mundi spara í ykkar sporum er saltið. Setjið allt í pott, sjóðið u.þ.b. 3 mínútur og borðið með mjólk út á. Frábær aðferð til að koma höfrum og krækiberjasaft í barnungana.

 

 

Kóngabrauð

Þetta er hversdagskaka,
ákaflega fljótgerð og mjög góð.

6 bollar(stórir) hveiti
1 1/2 bolli sykur
1/2 stk smjörlíki
1 egg
6 tsk. lyftiduft
mjólk
rabarbarasulta
kanilsykur

 

Látið þurrefnin á borð eða í víða og grunna skál. Myljið smjörlíkið saman við og hrærið eggið og mjólkina upp í. Passið að deigið verði ekki þurrt áður en það hnoðast saman, betra er að hnoða meira hveiti upp í á eftir.

Skiptið deiginu í tvennt. Fletjið hvorn helming út þannig að hann sé u.þ.b. þrisvar sinnum lengri en breiddin er. Passleg þykkt er 3/4 cm. Smyrjið síðan rabarbarasultu á deigið og rúllið upp. (Á að vera eins og mjög löng rúlluterta) Vætið rúlluna með mjólk (eða eggjamjólk) og stráið kanilsykri yfir. Setjið eins og S á vel smurða plötu (má hafa smjörpappír undir).
Bakið við 200°, u.þ.b. 30 mínútur. Skerið í sneiðar um leið og neytt er.

P.S. Til tilbreytingar má taka hluta af deiginu og þynna með mjólk og bæta kakói saman við. Er það þá notað í stað sultu.

 

 

Lambakjöt á grilli

Lambalæri (1 stk. fyrir 4-5 )
Lamb Islandia (krydd frá Pottagöldrum)
salt

Salat:
Iceberg-kál
tómatar
agúrkur
ananasbitar

Kartöflubátar: (þarf ekki að afhýða) steiktir á pönnu í dálítilli olíu eða bakaðir í ofni. (Kartöflukrydd)

Úrbeinið lambalærið og skerið í bita ca. 4-5 cm. þykka (skornir eftir endilöngu lærinu). Kryddið vel með "Lamb Islandia" og smávegis salti, staflið bitunum á disk og látið bíða minnst hálfa klukkustund. Pakkið síðan bitunum inn í álpappír og setjið á grill ca. 7-8 mínútur á hvorri hlið við mikinn hita. Berið fram með salati og kartöflubátum.
P.S. Lærbeinin með kjötinu, sem eftir er á þeim, er sjálfsagt að nota í kjötsúpu sem bætt er með gulrótum, og súpujurtum. Mauksjóðið, takið kjötið af beinunum og skerið í smábita.

 

Tengill dagsins:

Amma gamla á netinu