Sannir skólabrandarar
(Kennarar! Sendið mér línu ef þið munið eftir einhverju smellnu)
omo@vortex.is

Við vorum að vinna í náttúruverkefni nú á haustdögum og til stóð að fara með alla nemendur skólans í Heiðmörk til að kenna þeim að þekkja helstu trjátegundir, tína ber o.fl. Deginum áður voru krakkarnir að búa til klippimyndir í tengslum við verkefnið þegar
einn drengjanna sagði:
"Ég get ekki klárað myndina mína í dag."
Þá sagði vinur hans: "Það er allt í lagi, þú gerir það bara á morgun." En vinurinn var ekki alveg á því og sagði: "Ertu vitlaus mar, þá erum við að fara í eyðimörkina!"

Einn kennarinn í skólanum þurfti að fara í aðgerð á sjúkrahúsi og var að skýra bekknum frá því að hún væri að fara í "veikindaleyfi". Þá sagði einn nemandinn: "Hva.....getur þú ákveðið fyrirfram hvenær þú verður veik?"

Ég var að ergja mig yfir tölvukerfinu, einu sinni sem oftar, og sagði við samkennara minn: "Oh, maður getur ekki einu sinni gengið frá tölvunni". Þá svaraði hann um leið:
"Hva, kanntu ekki að ganga?"

Nemandi kom heim úr skólanum og kallaði: "Mamma, mamma, það er frí í skólanum á morgun, það er "Star Wars" dagur hjá kennurunum!" Þegar mamman las miðann sem sendur hafði verið heim með stráksa sá hún að það átti að vera "starfsdagur" daginn eftir.

Dag einn hitti kennari nokkur sex ára dreng á skólagang-inum, framan við kennarastofuna. Drengurinn leit upp á kennarann og sagði: "Heyrðu, geturðu sagt mér hvar riddarinn er?" Það leið nokkur stund þangað til kennarinn áttaði sig á því að drengurinn hafði verið sendur til ritarans.

Kennari var að fara yfir íslenskupróf. Þar áttu nemendur m.a. að útskýra orðið samsæti. Einn nemandinn hafði skrifað að orðið samsæti þýddi sófi. Kennaranum fannst svo mikið til um rökhugsunina hjá drengnum að hann gaf honum hálfan fyrir svarið.

Pabbinn var að koma með sex ára stúlkuna sína í skólann einn af fyrstu dögum haustsins. Hann hélt langa ræðu yfir henni um það að nú yrði hún að vera dugleg að læra. Eitthvað fannst telpunni ræða pabbans yfirgengileg því hún leit með alvörusvip á hann og sagði: "Já, en pabbi minn, maður þarf nú ekki að læra allt í sex ára bekk".

Nemandi átti að útskýra setninguna: "Allt er í heiminum hverfult". Hans útskýring var svona: "Allsstaðar í heiminum er allt fullt af hverum".

Stúlka nokkur var að þýða úr dönsku, nánar tiltekið úr sögunni um geiturnar þrjár sem fóru yfir brúna sem tröllkarlinn var undir. Setningin sem hún átti að þýða var svona: "Og så for den lös på trolden"... og stúlkan þýddi: "Og svo réðst lúsin á tröllið".