Veiðimolar

Tenglar:
 

 

 

 

 

 

 

Ég telst nú ekki til stórveiðimanna en fer þó á hverju sumri í silungsveiði, mest Elliðavatn, enda hef ég enn ekki farið í vatn sem mér finnst eins skemmtilegt að veiða. Þarna við vatnið, Heiðmerkur-megin,er líka gott útivistarsvæði fyrir alla, frábærir göngustígar og svæðið allt yndislega fallegt. Þarna er hægt að tína krækiber, bláber, hrútaber og sveppi og blóðberg til að krydda fiskinn með.

Stærsti fiskurinn sem ég hef veitt var u.þ.b. 20 punda lax sem ég veiddi í Flókadalsvatni. Ég var nú ekki alveg viss um að ég væri með fisk, hélt að ég hefði botnfest, en þá tók laxinn út alla línuna og dró svo bátinn góðan spotta. Svo synti hann undir bátinn og allt hvað eina. Reyndar fékk ég hjálp við að landa honum, því að þegar ég var búin að þreyta hann dálitla stund stökk hann og mér brá svo við að sjá stærðina á honum að ég henti stönginni í mág minn sem síðan skellti sér upp á land þegar við vorum komin nógu nærri og tók laxinn upp þar.

Skemmtilegasta veiðiferð sem ég hef farið í var þegar við fórum út í Héðinsfjörð og vorum þar í viku. Þar er náttúran einstök, þarna er byggð farin í eyði og fjallarefirnir taka á móti þér þegar þú kemur á lítilli jullu í land. Engin bryggjuaðstaða er í firðinum og því þarftu að semja við trillukarlana á Siglufirði um að koma þér þangað, eða hreinlega labba yfir fjöllin frá Siglufirði. Þarna er bæði hægt að veiða í sjónum, í Héðinsfjarðarvatni, og í ánni, bæði ofan við vatnið og í ósnum milli vatns og sjávar. Svo er allt krökkt af berjum þarna í ágústmánuði, svo nóg er við að vera.